Thursday, April 07, 2005

Kerfi við skráningu heimilda

Ætlast er til að þið notið kerfi við skráningu heimilda í meistaraprófsritgerðum. Tvö kerfi eru algengustu það er kerfi Baldurs Sigurðssonar og Indriða Gíslasonar sem kynnt var í litlum bæklingi og gefið út af Rannsóknarstofnun KHÍ.
Hitt er APA kerið (kerfi sem ameríska sálfræðingafélagið hefur verið að móta).
Upplýsingar um APA má finna í:
Gagnfræðakver handa háskólanemum eftir Friðrik Jónsson og Sigurður J Grétarsson
Handbók sálfræðiritsins eftir Júlíus Björnsson og Einar Guðmundsson
Manual American Psychological Ass.
http://www.wisc.edu/writing/Handbook/DocAPACitations.html
http://www.wisc.edu/writing/Handbook/DocAPAReferences

Um heimildir

Það fyrsta sem mig langar til að ræða eru heimildir sem notaðar eru í meistaraprófsritgerðum.

1. Aldur heimilda:
Einu sinni heyrði ég að þú ættir aldrei að nota heimildir sem væru eldri en 5 ára nema þær væru þá að minnsta kosti 100 ára! Klassískar heimildir eru oft mjög gamlar og þær á að nota. Aðrar heimildir eiga að vera eins nýjar og mögulegt er.

2. Námsritgerðir sem heimildir:
Vísið helst ekki í M.Ed./M.A/M.S ritgerðir nema þar sé að finna niðurstöður rannsókna sem tengjast efni ritgerðar ykkar. T.d. ef þið skrifið um sérkennslu á Íslandi þá er í lagi að vísa í niðurstöður úr öðrum M.Ed. ritgerðum um sama efni. Vísið EKKI í fræðilega hluta slíkra ritgerða. Þó nemandi hafi skrifað um Piaget í fræðilega hluta í M.Ed. ritgerð þá ætti helst ekki að vísa í slíkt þið eigið að lesa Piaget sjálf!

3. Vísið ekki í gegnum aðra:
Stundum eruð þið að lesa bækur þar sem vitnað er í aðrar rannsóknir. Þá kemur að samkvæmt Jónu Jónsdóttur (2003) hafi Jón Jónsson 1978 fundið að ...... Notið eins lítið og mögulegt er af slíkum vísunum þið eigið að vera með frumheimildina.

4. Munnlegar heimildir
Það ætti ekki að vera nema í algjörri neyð að þið vísið í fyrirlestra úr námskeiðum eða fyrirlestra almennt (nema þeir hafi verið gefnir út á prenti). Það getur enginn farið og tékkað af slíka heimild.

5. Heimildir á Netinu
Á www.hvar.is og víðar er hægt að finna mikið magn af tímaritsgreinum sem eru ritrýndar (sumar hafa áður komið út á pappír aðrar ekki). Þarna eru í raun um hefðbundnar tímaritsgreinar að ræða sem búið er að lesa yfir af öðrum fræðimönnum og samþykkja til birtingar. Það er ekkert að því að nota slíkar heimildir.
Heimildir af heimasíðum fólks eru aftur á móti ekki eins traustar heimildir sérstaklega vegna þess að ekki er búið að ritrýna þær (nema þær hafi birst annars staðar).

5. Mogginn og önnur dagblöð
Með fullri virðingu fyrir Morgunblaðinu og öðrum dagblöðum þetta eru ekki fræðileg tímarit. Það er þó fínt að vísa í Moggann (notað hér sem samheiti fyrir dagblöð) ef verið að vísa í almenna umræðum t.d. að miklar deilur hafi verið um stærðfræðikennslu þá væri fínt að vitna í greinar foreldra í blöðum. Ekki vísa í greinar þar sem verið er að segja frá niðurstöðum rannsókna vísindamanna - oft er ekki haft rétt eftir og þarna vantar líka að búið sé að ritrýna efnið.

6. Notið tímaritsgreinar:
Tímaritsgreinar íslenskar og erlendar eru oft með nýjustu þekkinguna á hverju sviði. Þið eigið að vísa í það sem nýtt og svo náttúrulega í það sem er klassískt.


www.hvar.is þetta er gullnáma þarna má finna ógrynni af tímaritsgreinum.
Bókasafn KHÍ þar má margt finna og þar vinna fínar fagmanneskjur sem getað aðstoðað ykkur.
Munið að möguleiki er á að kaupa bækur á safnið samkvæmt ábendingum nemenda eða fá þær í millisafnalán.


Sendið mér endilega línu hvort ykkur finnst ástæða til að fá slíka pistla eða hvort þetta sé það augljóst að óþarfi sé að minna á slíka hluti.